Hverjar eru helstu hugmyndir þínar um breytingar á stjórnarskránni?
19.10.2010 | 00:25
Ég óska þess að ný Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands muni tryggja:
- að fullkomin skil séu milli löggjafar- , framkvæmdar- og dómsvalds. Að hlutverk forsetaembættisins sé einungis að verja stjórnarskrá og tryggja sjálfstæði Alþingis, ríkisstjórnar og dómstóla. Skoða þarf vel mannaráðningamál í lykilstöður. Að ríkisvald sé gegnsætt og að stjórnmál séu frjáls frá efnahagsvaldi og að þau hafi ekki áhrif á fjölmiðla.
- nýjar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur. Að mikilvæg mál eins og möguleg innganga Íslands í ESB og aðskilnaður kirkju og ríkis séu ákveðið með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðagreiðsla sé ógild ef þátttaka nær ekki meirihluta Íslendinga á kjörskrá og lögin séu staðfest eða hafnað með meirihluta gildra atkvæða. Að þjóðin, með undirskriftasöfnun, geti krafist þjóðatkvæðagreiðslu fyrir mikilvæg mál.
- frjálst viðskiptafrumkvæði, sem fer ekki fram gegn almannahagsmunum, öryggi, frelsi og mannvirðingu. Að auðlindir Íslands séu í eigu íslensku þjóðarinnar og að sjálfbær nýting þeirra sé höfð að leiðarljósi þannig að komandi kynslóðir geti einnig nýtt sér þær. Að sjálfstæð Þjóðhagsstofnun komi til stuðnings Alþingis og verði ekki lögð niður aftur.
- efld grunngildi eins og lýðræði, jafnrétti, borgararétt og réttlæti. Að stjórnvöld og borgarar sýni samfélagslega ábyrgð, samhygð og vernd gagnvart viðkvæmum hópum í samfélaginu (börnum, fötluðum og öryrkjum), og virðingu gagvart náttúru Íslands (Náttúruverndarákvæði).
Ég óska þess að í nýrri stjórnarskrá séu settar skýrar reglur til að verja og virða alla kafla hennar. Að öllum greinum sé fylgt í daglegu lífi, að þau séu ekki mistúlkuð og séu til fyrirmyndar fyrir alla Íslendinga. Að hún sé haldgóður og lifandi texti. Góð stjórnarskrá er sú sem inniheldur öll grunngildi en besta stjórnarskráin er sú sem er einnig virt frá fyrstu til síðustu greinar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.